Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Kynningar- og námsefni um Barnasáttmálann

Réttindi mín - elsta stig

Réttindi mín 14-18 ára

Þetta eru réttindi þín. Það eru sömu réttindi og annarra barna og unglinga í öllum heiminum.  Lestu, lærðu og ræddu um þau í skólanum, í félögum sem þú ert í og í vinahópnum.

Barnasáttmálinn gildir um öll börn og unglinga
1. OG 2. GREIN
Barnasáttmálinn gildir um allt fólk yngra en 18 ára, nema þá sem orðið hafa lögráða fyrr. Hann gildir um öll börn og unglinga án tillits til litarháttar, kynferðis, tungu, uppruna eða þjóðernis, þjóðhátta, trúar, stjórnmálaskoðana, fötlunar eða félagslegrar aðstöðu.

 

 

 Mismunun og ofsóknir
2. GREIN
Börn og unglingar, sem verða fyrir ofsóknum eða misrétti vegna stöðu, athafna, skoðana eða trúar sjálfra sín, foreldra sinna eða einhvers úr fjölskyldunni, eiga rétt á vernd.

Það sem er börnum og unglingum fyrir bestu
3. GREIN
Þegar dómstólar, ráðuneyti, nefndir eða aðrar stofnanir úrskurða í málum sem varða börn og unglinga, ber þeim ævinlega fyrst og fremst að taka tillit til þess hvað er barninu eða unglingnum fyrir bestu.

Framkvæmd sáttmálans
4. GREIN
Ríki sem hafa undirritað sáttmálann eiga að sjá til þess að lög og reglur landsins séu í samræmi við hann.  Stjórnvöld eiga að vinna að því eftir fremsta megni að réttindi barna séu virt í framkvæmd.

Alþjóðleg samvinna
4. GREIN
Hafi eitthvert ríki ekki fjármuni til að framfylgja ákvæðum sáttmálans á það kröfu á alþjóðlegri samhjálp.

 

 

Ábyrgð foreldra
5., 18., 26. OG 27. GREIN
1. Foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn sitt og koma því
til þroska. Það sem er barninu fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.  Foreldrarnir eiga einnig að fræða barnið um réttindi sín og kenna þeim að notfæra sér þau.
2. Ríkið á að virða og styðja foreldra og aðra sem bera ábyrgð á börnum og uppeldi þeirra.
3. Ríkið á að tryggja að börn útivinnandi foreldra fái þá umönnun sem þau eiga rétt á.
4. Ríkið á líka að sjá til þess að stofnanir og þjónusta handa börnum og unglingum sé í samræmi við sáttmálann.

Réttur til að lifa
6. GREIN
Öll börn og unglingar öðlast við fæðingu rétt til lífs. Ríkið á að gera allt sem hægt er til að tryggja þeim réttinn til að lifa, vaxa og þroskast.

Réttur til eiginnafns og persónuleika
7. OG 8. GREIN
1. Þegar barn fæðist á strax að skrá það. Barnið á líka rétt á nafni og ríkisfangi og eftir því sem unnt er á það rétt á að þekkja foreldra sína og að njóta umönnunar þeirra.
2. Enginn má svipta barn því sem auðkennir það sem einstakling.

 

 

 Börn og foreldrar
9., 10. OG 11. GREIN
1. Barn má ekki skilja frá foreldrum sínum nema foreldrarnir búi ekki
saman ellegar það reynist eftir nákvæma athugun barninu fyrir
bestu.
2. Búi barn ekki hjá foreldrum sínum á það rétt á að hitta báða foreldrana svo oft að persónuleg tengsl geti haldist. Það gildir jafnt þó að annað foreldrið búi í öðru landi en barnið.
3. Ef annað foreldri eða bæði eru aðskilin frá barninu vegna fangelsunar, brottvísunar úr landi eða andláts, á barnið rétt á að fá að vita hvað hefur komið fyrir foreldrið sem er fjarverandi.
4. Ekkert barn má flytja úr landi né kyrrsetja erlendis gegn vilja foreldranna eða barnsins sjálfs.

 Réttur til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar
12., 13. OG 14. GREIN
1. Börn og unglingar eiga rétt á að láta í ljós skoðun sína og að tekið sé mark á þeim í málum sem varða þau sjálf.
2. Börn og unglingar eiga að hafa tjáningarfrelsi. Það felur í sér rétt til að leita að, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum. Þau eiga rétt á að tjá sig í tali, rituðu máli, mynd og söng eða á einhvern annan hátt, svo framarlega sem þau trufla ekki eða særa annað fólk.
3. Það á að virða skoðanir, samvisku og trú barna og unglinga.

 

 

Réttur til að vera í félögum
15. GREIN
Börn og unglingar eiga rétt á að stofna og vera með í félögum og koma saman með friðsamlegum hætti svo fremi að það skerði ekki frelsi og réttindi annarra.

Réttur til einkalífs
16. GREIN
1. Hvorki börn né unglingar mega sæta gerræðislegum eða ólöglegum afskiptum af einkalífi sínu eða fjölskyldu sinnar og heimili sínu.  Bréf þeirra og dagbækur eru eign þeirra sjálfra. Aldrei má veitast að sæmd né mannorði nokkurs manns.
2. Börn og unglingar eiga rétt á lagalegri vernd fyrir slíkum afskiptum og árásum.

Réttur til alhliða upplýsinga
17. GREIN
1. Ríkið á að sjá til þess að börn og unglingar hafi aðgang að góðum upplýsingum og efni í blöðum, bókum, hljóðvarpi og sjónvarpi.
2. Ríkið á að stuðla að því að barnabækur séu samdar og þeim dreift.
3. Börn og unglingar, sem eiga sér annað móðurmál en íslensku, eiga að hafa aðgang að góðu efni á sínu eigin máli.

 

 

 

 Misþyrmingar og ofbeldi
19., 34. OG 39. GREIN
1. Hvorki foreldri né annað fullorðið fólk hefur nokkurn rétt til þess að fara illa með börn og unglinga. Ríkinu ber á allan mögulegan hátt að vernda börn og unglinga gegn valdbeitingu, misnotkun og
kynferðislegu ofbeldi. Það á jafnvel að grípa til aðgerða ef foreldrar
vanrækja börn sín eða eru ekki færir um að annast þau.
2. Börn og unglingar, sem hafa sætt vanvirðandi meðferð, ofbeldi eða pyndingum ellegar hafa lent í stríði, eiga rétt á allri hugsanlegri hjálp.  Þau eiga rétt á að vera flutt í umhverfi þar sem hlynnt er að heilsu, sjálfsvirðingu og göfgi þeirra.

Fósturheimili og ættleiðing
20. OG 21. GREIN
1. Ef börn og unglingar sæta svo illri meðferð á heimili sínu að þau hljóti skaða af eiga þau rétt á því að vistast annars staðar þar sem þeim getur liðið vel.
2. Börn sem eiga enga fjölskyldu ættu að eiga kost á ættleiðingu þegar það er þeim fyrir bestu.

 

 

Börn og unglingar sem eru flóttamenn
22. GREIN
1 Börn og unglingar, sem hafa neyðst til að flýja land sitt, einsömul eða
með fjölskyldu sinni, eiga að fá vernd og aðstoð í nýja landinu  Öll réttindi þeirra skulu virt.
2. Börn og unglingar, sem hafa flúið ein síns liðs, eiga rétt á aðstoð til að ná sambandi við fjölskyldu sína svo að fjölskyldan geti sameinast á ný.
3. Reynist ómögulegt að leita uppi fjölskyldu barns, sem er flóttamaður, á að finna handa barninu heimili þar sem því getur liðið vel.

Fötlun og hjálpartæki
23. GREIN
1. Börn og unglingar með andlega eða líkamlega fötlun eiga rétt á lífi sem stuðlar að sjálfstrausti þeirra og virkri þátttöku í samfélaginu.
2. Þau eiga að hafa aðgang að góðum hjálpartækjum og fá menntun. Ef foreldrarnir hafa ekki efni á að borga fyrir þetta á að veita þeim opinberan styrk.

Réttur til heilsugæslu
24. GREIN
1. Börn og unglingar eiga rétt til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja. Þau eiga líka rétt á góðri heilsugæslu og hjúkrun.
2. Allir eiga rétt á hollum mat og hreinu vatni. Það á að berjast gegn náttúruspjöllum og vera á varðbergi gegn þeim hættum sem af umhverfismengun geta stafað.
3. Bæði börn og foreldrar eiga að fá upplýsingar um heilbrigði barna og næringu, hreinlæti og þrifnað, kosti brjóstagjafar og slysavarnir.

 

 

Vistun
25. GREIN
Börn og unglingar, sem eru á sjúkrahúsi eða einhverri annarri stofnun til
meðferðar eða umönnunar, mega ekki gleymast. Þau eiga rétt á að meðferð þeirra og allar aðstæður séu undir reglubundnu eftirliti.

Réttur allra til ókeypis skólagöngu
28. GREIN
1. Öll börn og unglingar eiga rétt á ókeypis grunnmenntun og upplýsingum og ráðgjöf um nám og starfsval. Þau eiga líka að hafa möguleika á framhaldsmenntun.  Það á að stuðla að reglulegri skólasókn og vinna að því að allir nemendur ljúki námi sínu.
2. Námsagi í skólanum á að vera með þeim hætti að hann samræmist mannlegri reisn nemendanna og ákvæðum þessa sáttmála.
3. Þau ríki sem hafa skrifað undir þennan sáttmála eiga að vinna í sameiningu að þeim markmiðum að veita öllum börnum og unglingum í öllum heiminum kost á því að ganga í skóla og hljóta góða menntun.

Skólastefnan
29. GREIN
Skólamenntun skal stefna að því:
a) Að gefa nemandanum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum og rækta hæfileika sína eins og hann hefur getu til.
b) Að kenna nemandanum að bera virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og einnig að hafa í heiðri grundvallaratriði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
c) Að rækta með nemandanum virðingu fyrir hans eigin menningararfleifð, tungu og gildismati og jafnframt fyrir öðrum menningarháttum sem eru ólíkir menningu hans sjálfs.
d) Að undirbúa nemandann til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu allra þjóða.
e) Að kenna nemandanum að vernda náttúruna og umhverfið.

 

 

 

Réttur til að viðhalda eigin menningu
30. GREIN
Börn og unglingar, sem eiga sér annað móðurmál, menningu eða trú en meirihlutinn í landinu, eiga að hafa rétt
 il að njóta menningar sinnar með þeim minnihlutahópi sem þau tilheyra.  Þau eiga líka rétt á að iðka sína trú og nota sitt eigið tungumál.

Réttur til hvíldar og tómstunda 
31. GREIN 
1. Öll börn og unglingar eiga rétt á hvíld og frítíma og til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þeirra. Þau eiga rétt á að taka óhindrað þátt í menningarlífi og listum. 
2. Ríkið á að stuðla að því að allir fái jöfn tækifæri til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.

 

 

Skaðleg vinna og arðrán
32., 34. OG 36. GREIN
1. Hvorki börn né unglinga má neyða til að inna af hendi vinnu sem skaðar heilsu þeirra eða þroska. Það á að setja reglur sem segja til um hve gamall maður þarf að vera fyrir hin ýmsu störf og um lengd vinnutímans.
2. Börn og unglinga má ekki nota til vændis né þvinga þau til annarra kynferðisathafna. Það má heldur ekki nota þau í klámsýningum né til að búa til klámefni í blöð.
3. Ríkið á að vernda börn og unglinga fyrir hvers kyns arðráni og notkun sem getur skaðað þau á einhvern hátt.

Eiturlyf
33. GREIN
Ríkið á að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda börn og unglinga fyrir neyslu eiturlyfja. Þau má heldur ekki nota til að framleiða eða versla með eiturlyf.

Verslun með börn
35. GREIN
Ríkið skal skal gera allt sem við á til að koma í veg fyrir brottnám barna og unglinga, sölu á börnum og unglingum eða að þau séu á nokkurn hátt gerð að verslunarvöru.

 

 

Meðferð við réttarhöld
40. GREIN
1. Börn og unglingar, sem eru grunuð um eða hafa framið afbrot, eiga rétt á meðferð sem eflir virðingu og treystir vitund þeirra um eigið manngildi. Þau skulu meðhöndluð þannig að virðing þeirra fyrir réttindum og frelsi annarraaukist. Það á líka að hjálpa þeim til að aðlagast samfélaginu á nýjan leik.
2. Það á að telja þau saklaus þar til sekt er sönnuð. Ekki má þvinga þau til að vitna gegn sjálfum sér eða játa á sig sök.
3. Við réttarhöld eiga þau rétt á óhlutdrægum lögmanni til að verja sig og jafnvel aðstoð túlks ef á þarf að halda.  Friðhelgi einkalífs þeirra skal alltaf virt.
4. Ríkið á að ákvarða lágmarksaldur sem börn verða að hafa náð til þess að vera talin sakhæf. Börn og unglingar, sem hafa brotið af sér, eiga rétt á endurhæfingu sem er jákvæð bæði fyrir þau og samfélagið.

Refsing og fangelsi
37. GREIN
1. Engin börn eða unglinga má láta sæta pyndingum eða annarri grimmilegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu.  Menn yngri en 18 ára má aldrei dæma til dauða eða í lífstíðarfangelsi.
2. Engan má gerræðislega eða ólöglega svipta frelsi sínu. Ef börn eða unglingar eru handtekin, sett í gæsluvarðhald eða fangelsi verður að fara að lögum, og slíku má aðeins beita sem síðasta úrræði og í skemmsta tíma sem við getur átt.
3. Það á að auðsýna börnum og unglingum, sem lokuð eru inni í fangelsi eða sambærilegri stofnun, mannúðlega meðferð og virðingu. Þau eiga rétt á að halda sambandi við fjölskyldu sína með bréfaskriftum og heimsóknum.
4. Hvert einasta ungmenni, sem svipt er frelsi sínu, á rétt á lögfræðilegri og annarri aðstoð til að fá mál sitt borið undir dómstól og einnig rétt á að fá skjótan úrskurð í málinu.

 

 

Þátttaka og vernd í stríði
38. GREIN
1. Komi stríð á að vernda börn og unglinga eins og framast er mögulegt. Ríkið á að sjá til þess að börn yngri en 15 ára taki ekki þátt í vopnaátökum.
2. Þurfi að kalla til herþjónustu unglinga yngri en 18 ára skal kalla þá elstu fyrst.

Kynning á sáttmálanum
42. GREIN
1. Sáttmálann á að kynna og útskýra svo að bæði börn, unglingar og fullorðnir skilji ákvæði hans.
2. Ríkið er skuldbundið til að upplýsa eins marga og mögulegt er um sáttmálann og gildi hans.

Þetta eru Réttindi þín, bók um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Þessi samningur er jafnan kallaður Barnasáttmálinn og á við um öll börn og alla unglinga undir átján ára aldri í heiminum öllum.

Barnasáttmálinn fjallar um öll þau réttindi sem börn og unglingar eiga. Öll börn í heiminum eru jafnmikils virði og eiga sömu réttindi. Sáttmáli er samkomulag milli ríkja. Með því að skrifa undir sáttmálann, fullgilda hann, lofa ríkin að fylgja þeim ákvörðunum sem sáttmálinn lýsir. Hvert atriði sáttmálans er kallað grein.

Flest ríki heimsins hafa skrifað undir Barnasáttmálann. Íslendingar fullgiltu hann 28. október árið 1992. Það þýðir að íslenska ríkisstjórnin hefur lofað að uppfyllt verði það sem stendur í sáttmálanum.

Barnasáttmálinn er í 54 greinum og við höfum valið nokkrar þeirra til að kynna í þessari bók. Það er mikilvægt að þú þekkir réttindi þín og að þú hjálpir til við að fræða öll börn um Barnasáttmálann svo að þau þekki réttindi sín. Þegar þú ert búin(n) að lesa bókina skaltu athuga hvernig málum er háttað í skólanum þínum, heima hjá þér og í bænum þínum eða sveitinni til þessa að þú getir sjálf(ur) haft áhrif á þá sem stjórna.

 

© BARNkonventionsgruppen 1992 © Myndir: Andersson & Andersson Útlit: Andersson & Andersson, Gautaborg
Myndir: Gert Andersson © 1994 Íslensk þýðing: Vilborg Dagbjartsdóttir Ritstjórn íslensku útgáfunnar: Árný Elíasdóttir og Heimir Pálsson
Öll réttindi áskilin 1. útgáfa 1994 2. prentun 1994
Námsgagnastofnun og Dóms- og kirkjumálaráðuneytið Umbrot og myndvinnsla: PRENTHÖNNUN HF
Prentun: Prentsmiðjan Oddi hf. Prentað á endurunninn og visthæfan pappír