Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Barnasáttmálinn

Aðrir alþjóðlegir samningar

Teiknimynd fígúra og heimur í sjóÝmsir alþjóðlegir samningar

Alþjóðlegir mannréttindasamningar og yfirlýsingar taka almennt til réttinda barna jafnt og fullorðinna þó þess sé ekki sérstaklega getið í þeim.

Þannig má segja að Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 hafi verið ætlað að tryggja börnum þau réttindi sem þar var kveðið á um.

Sama má segja um samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem samþykktur var í Evrópuráðinu í nóvember árið 1950. Hann er almennt kallaður Mannréttindasáttmáli Evrópu og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar þann 3. september 1953. Hann var lögfestur 30. maí 1994, sbr. lög nr. 62/1994.

Í desember 1966 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tvo samninga, annars vegar Alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og hins vegar Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þessir samningar hafa að geyma ákvæði er varða réttindi barna. Samningar þessir voru fullgiltir í apríl 1979 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar þann 22. nóvember 1980.

Samningar um réttindi barna

Ýmsir alþjóðlegir samningar eða yfirlýsingar hafa vikið að sérstökum réttindum barna. Nefna má yfirlýsingu Þjóðabandalagsins um réttindi barna sem samþykkt var í Genf árið 1924. Í Genfaryfirlýsingunni um réttindi barna, eins og hún er oft kölluð, var kveðið á um skyldur hinna fullorðnu gagnvart börnum í fimm meginatriðum. Segja má að hún sé forveri Barnasáttmálans.

Hinn 20. nóvember 1959 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna yfirlýsingu um réttindi barnsins. Í henni var vísað til þess að vegna líkamlegs og andlegs vanþroska eigi börn rétt á sérstakri umönnun og vernd og hafði hún að geyma 10 meginreglur. Hún fól í sér áskorun til ríkisstjórna, sveitarstjórna, hjálparsamtaka, foreldra og einstaklinga um að virða réttindi barna og tryggja framkvæmd reglnanna með lagasetningu og öðrum hætti.

Er tuttugu ár voru liðin frá samþykkt yfirlýsingar þessarar, árið 1979, var ákveðið að það ár skyldi verða ár barnsins en þá skyldi athygli heimsins beint að málefnum barna, aðbúnaði þeirra og kjörum. Jafnframt var hafinn undirbúningur að gerð Barnasáttmálans.

Ísland er aðili að Samningi um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa (Haag-samningurinn) og Evrópusamningi um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna. Markmið Haag-samningsins er sérstaklega að leysa úr þeim vandamálum sem leiða af því að annað foreldra barns flytur barnið með ólögmætum hætti frá einu samningsríki til annars. Með því að gerast aðili að samningnum skuldbinda ríkin sig til að afhenda brottnumið barn, komi fram umsókn um afhendingu þess. Haag-samningurinn gildir aðeins ef barnið sem í hlut á er yngra en 16 ára. Í lögum um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnumda barna o.fl. nr. 160/1995 er mælt fyrir um hvernig hagað skuli meðferð máls vegna brottnáms barns til Íslands eða hald barns á Íslandi. Hér á vef innanríkisráðuneytisins eru ítarlegar upplýsingar um samninginn og tenglar.

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) er sérstök stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sett var á fót árið 1919.  Ísland gerðist aðili að stofnuninni árið 1945. Helstu samþykktir sem varða börn eru: