10. október 2022

Vegna bréfs borgarstjóra

Umboðsmanni barna hefur borist svarbréf borgarstjóra um gjaldskrárhækkanir Strætó bs., og kosningaloforð um gjaldfrjálsar strætósamgöngur fyrir öll börn í Reykjavík.

Þann 3. desember á síðasta ári, sendi umboðsmaður barna bréf til framkvæmdastjóra og stjórnar Strætó bs., þar sem óskað var skýringa vegna nýrrar gjaldskrár, en samkvæmt henni hækkaði gjald fyrir árskort ungmenna um 60% á sama tíma og gjöld fyrir fullorðna voru lækkuð.

Þann 24. janúar sl., sendi umboðsmaður barna bréf til borgarstjóra Reykjavíkur og bæjarstjóra hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fjallað er um nýja gjaldskrá Strætó, en samkvæmt henni hækkaði gjald fyrir árskort ungmenna um 60% á sama tíma og gjöld fyrir fullorðna notendur voru lækkuð. Í bréfinu óskaði umboðsmaður barna eftir skýringum á því hvernig umrædd hækkun samræmist bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu. Einnig óskaði umboðsmaður eftir svörum við því hvort mat hafi verið lagt á áhrif þessarar ákvörðunar á þau börn sem ljóst er að hækkunin snerti hvað mest, þ.e. börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður. Þá óskaði umboðsmaður barna eftir skýringum á því, hvernig umrædd sveitarfélög, sem hafa öll lýst því yfir að vera barnvæn, rökstyðja umrædda hækkun á nauðsynlegri þjónustu fyrir börn. Engin svör bárust við bréfinu.

Þann 16. september sl., sendi umboðsmaður bréf til borgarstjóra þar sem óskað var svara við þeim spurningum sem settar voru fram í bréfinu dagsettu 24. janúar sl., en auk þess óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um það hvenær meirihluti borgarstjórnar hyggst gera strætósamgöngur ókeypis fyrir öll börn á höfuðborgarsvæðinu, en um er að ræða kosningaloforð, sem ítrekað er í samstarfssáttmála, sem ein af fyrstu breytingunum sem hinn nýi borgarstjórnarmeirihluti ætlaði að ráðast í.

Svarbréf borgarstjóra er dagsett 4. október, en þar eru því miður ekki veitt nein svör við þeim spurningum sem settar hafa verið fram í áðurnefndum bréfum. Börn sem eru 11 ára og yngri þurfa ekki að greiða fargjöld hjá strætó. Í svari borgarstjóra kemur fram að hinn nýi meirihluti hafi „sett stefnuna“ á að hækka þetta aldursviðmið þannig að það taki til allra barna á grunnskólaaldri, sem er í ósamræmi við samstarfssamsáttmála meirihlutans og kosningaloforð hans til barna og fjölskyldna þeirra. Í bréfinu er umboðsmaður barna hins vegar hvattur til þess að tala máli almenningssamgangna við stjórnvöld.

Tekið skal sérstaklega fram, að samkvæmt lögum nr. 83/1994, er hlutverk umboðsmanns barna að:

bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra, en samkvæmt sömu lögum er stjórnvöldum, þ.m.t. sveitarfélögum, skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. 

Ítarefni:


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica