31. desember 2013

Orð og efndir - Grein

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af þeirri óvissu og óstöðugleika sem ríkt hefur um þjónustu og úrræði fyrir börn að undanförnu. Umboðsmaður hefur ítrekað fagnað ákvörðunum um bætta þjónustu við börn sem hefur svo aldrei komið til framkvæmda eða aðeins að takmörkuðu leyti.

Í dag, 31.12.2013,  birtist grein eftir umboðsmann barna í Fréttablaðinu og á www.visir.is.

Orð og efndir!

Á undanförnum árum hefur Ísland tekið miklum breytingum og óvissa hefur ríkt um það hvert við stefnum. Á þessum óvissutímum þurfum við að standa sérstakan vörð um hagsmuni barna, ekki síst vegna þess hversu takmörkuð áhrif þau geta haft í stjórnmálalegu tilliti. Sérstaða barna endurspeglast meðal annars í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands, en þar kemur fram að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Þetta ákvæði leggur ákveðnar skyldur á Alþingi og felur jafnframt í sér þá grundvallarstefnuyfirlýsingu að stjórnvöldum beri að veita börnum sérstaka vernd, umfram aðra þjóðfélagshópa.

Ennfremur hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til þess að virða og uppfylla ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var lögfestur einróma af Alþingi hinn 20. febrúar síðastliðinn. Í Barnasáttmálanum kemur meðal annars fram að hagsmunir barna eigi ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á börn með einum eða öðrum hætti. Í því felst meðal annars að ef hagsmunir barna og annarra þjóðfélagshópa vegast á eigi hagsmunir barna að hafa forgang. Þetta sjónarmið ætti til dæmis að hafa mikla þýðingu þegar teknar eru ákvarðanir um ráðstöfum opinbers fjármagns.

Að mati umboðsmanns barna hefur íslenska ríkið ekki staðið nægilega vel við skuldbindingar sínar gagnvart börnum og skort hefur upp á að hagsmunir barna hafi raunverulega haft forgang við ákvarðanatöku ríkisins undanfarin ár. Sem dæmi um það má nefna þann mikla niðurskurð og skerðingu á þjónustu sem hefur bitnað á börnum. Oft er þessi niðurskurður falinn, til dæmis þannig að stofnanir eða úrræði sem hafa veitt börn þjónustu breyta vinnureglum sínum þannig að fleiri og fleiri börn eigi ekki rétt á þjónustu. Niðurstaðan er sú að hópur barna sem þurfa aðstoð, til dæmis vegna fötlunar eða annarra sérþarfa, fær ekki þá þjónustu sem hann þarf.

Óásættanlegt

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af þeirri óvissu og óstöðugleika sem ríkt hefur um þjónustu og úrræði fyrir börn að undanförnu. Umboðsmaður hefur ítrekað fagnað ákvörðunum um bætta þjónustu við börn sem hefur svo aldrei komið til framkvæmda eða aðeins að takmörkuðu leyti. Sem dæmi má nefna að stjórnvöld lýstu því yfir að byggja ætti upp nýtt úrræði fyrir börn sem eiga við alvarlegan vímuefnavanda að stríða eða hafa sýnt af sér afbrotahegðun, en nú hefur velferðarráðuneytið staðfest að það standi ekki til vegna skorts á fjármagni.

Í sumum tilvikum hafa lög jafnvel verið samþykkt en þau svo dregin til baka áður en þau taka gildi. Dæmi um það eru lög um lengingu fæðingarorlofs og lög um úrræði fyrir börn sem geta ekki búið heima hjá sér vegna vanrækslu. Umboðsmaður barna telur það óásættanlegt þegar Alþingi og stjórnvöld standa ekki við þær skuldbindingar sem búið er að samþykkja, sérstaklega þegar um er að ræða úrræði í þágu barna. Við þurfum að geta treyst því að þær ákvarðanir sem eru teknar muni standa þannig að óvissa ríki ekki um málefni barna.

Umboðsmaður barna hefur ítrekað komið ofangreindum áhyggjum sínum á framfæri við þingmenn og stjórnvöld. Hann mun halda því áfram og vonar að ráðamenn fari að lögum og hafi hagsmuni barna að leiðarljósi. Þegar metið er hvað er börnum fyrir bestu er sérstaklega brýnt að börn fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, enda eiga börn rétt á að tjá sig um öll mál sem þau varða samkvæmt Barnasáttmálanum.

Setjum hagsmuni barna í forgang eins og okkur ber skylda til að gera.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica